Sunday, 5 April 2015

páskafrííííí

Góðan daginn, kæru lesendur! Og GLEÐILEGA PÁSKA.
Ég er að hugsa um að skrifa það sem ég ætlaði mér að skrifa í gær, en kom ekki að þar sem það var svo margt annað sem vildi greinilega komast að fyrir. Það er svo skrítið, en stundum sest ég niður til að skrifa eitthvað að svo bara hamra puttarnir eitthvað allt annað og bara þjóta áfram. Mamma sagði einu sinni að ég ætti að vera rithöfundur, því ég á svo auðvelt með að skrifa og geri það víst skemmtilega líka. En ég gæti, held ég, ekki skrifað annað en eitthvað raunverulegt...og ég get ekki endalaust skrifað sögur í eigin lífi...eða hvað?! :)

Anyway. Eins og ég kom aðeins inn á í gær, að þá er komið vor hér á Skáni. Ekkert orðið neitt sólbaðsveður (ég svo sem fer aldrei í sólbað hvort eð er), en þið vitið, svona veður sem er erfitt að átta sig á hvernig maður á að klæða sig. Eina stundina alltof heitt fyrir peysu og þá næstu kemur köld vorgolan og peysa og vindjakki...og buff eða húfa er nauðsyn.
Við erum að bíða eftir að byggingarleyfi fáist, þá getum við pantað glerjun á svalirnar. Það verður æði að fá útistofu, það mun stækka stofuna og lengir notkunartíma svalanna talsvert mikið. Svo við vonum að það komi sem fyrst. Glerið er svo hægt að opna þannig að það verður líka hægt að nota svalirnar á heitum sumardögum.

Við erum að njóta þess að vera í páskafríi. Ég átti reyndar ekki að vera í fríi, en var svo heppin að það sárvantaði hjúkrunarfræðing á eina deildina um síðustu helgi, og þar sem ég er eini hjúkrunarfræðingurinn í teyminu "mínu" (eða eins og einhver sagði; "Ég ER teymið" :) haha) að þá auðvitað reddaði ég málunum. En ekki alveg óeigingjarnt, því ég var ekki til í að vinna 3 helgar í röð og sagðist myndu taka þá helgi í skiptum fyrir þessa. Svo ég endaði með 4ra daga páskafrí í staðinn fyrir að eiga bara frí á 2. páskadag :) Góð skipti fannst mér.
Veðrið hefur svo leikið við okkur og við fórum öll fjögur í golf í fyrradag. Fyrstu 9 holurnar mínar þetta árið og sennilega ekki þær síðustu. Það var virkilega gaman að koma út á golfvöll og slá einstaka gott högg og heilan helling af arfaslökum höggum. Ég lét það ekki hafa áhrif á góða skapið - enda hef ég varla spilað síðan sumarið 2012! Það sumar spilaði ég mjög mikið, enda gott veður. Svo ég taki mér orð gamallar vinkonu minnar í munn, að þá er ég enginn vosbúðar-golfari, og þess vegna spilaði ég sama og ekkert 2013 og ég held einu sinni 9 holur á Akranesi í fyrra og einu sinni 9 á Norðfirði.
 
 
 
Dásamlegur föstudaginn langi en það blés samt aðeins of mikið á sumum holum þennan dag. En þá er vert að minna sig á að apríl er bara rétt að byrja :) Framhaldið lofar góðu.
 
Hér er verið að ganga frá - við fengum 3 skápa og þurfum því ekki að dröslast með græjurnar fram og tilbaka í strætó í hvert sinn.

Í gær var líka gott veður og við ákváðum að fara í "Góða hirðinn" hér í bæ, sem heitir "Erikshjälpen". Alltaf gaman að skoða smá...og það var sko ekki ætlunin að versla neitt nema kannski smotterí svo við tókum með okkur bakpoka.
Fyrsta viðkoma var þó hér í næstu götu að kíkja á eitt stykki hjól sem við vorum búin að sjá á blocket (sem er svona síða eins og bland). Það er skemmst frá því að segja að við versluðum hjólið af konunni og nú er ég líka orðinn hamingjusamur hjólaeigandi!


Ekki amalegt :) Svo við hjónin skelltum okkur upp á hjólhestana og æddum af stað. Erikshjälpen var ekki leiðinlegur staður! Við enduðum á - eða reyndar ekki...við BYRJUÐUM á að versla okkur sjónvarpsskáp! Nánast það fyrsta sem við sáum þegar við komum inn og hann var svo fullkominn fyrir stofuna okkar og í þeim stíl sem við höfðum hugsað okkur. Við vorum búin að hugsa okkur að versla skápa í Ikea og gera eins og Valtýr mágur minn og Hulda svilkona mín og frænka gerðu, gera okkar eigin úr eldhússkápum (þeirra er geðveikt flottur sko!). En þarna duttum við um þennan flotta skáp og spöruðum okkur í leiðinni nokkra sænska þúsundkalla - það var ekki verra!

Við enduðum á að hjóla rúmlega 10 km, og ég verð að segja að lærvöðvarnir á mér voru orðnir ansi slappir í restina...enda langt síðan ég hef hjólað. Reiknaði satt að segja með að vera með harðsperrur í dag, en svo er ekki (sem betur fer!).

Einar byrjaði svo páskadaginn frekar snemma og skellti sér fyrstu 18 holur tímabilsins! Fékk sér pylsu eftir 9 og naut lífsins...


...á meðan við hin sváfum á okkar græna...   Unglingurinn reyndar vaknaði "snemma" eða um kl 11, sennilega páskaeggsfíknin sem vakti hann :) Takk amma Sigga Bára fyrir sendinguna :)

Ég og Jóhannes skelltum okkur út í tennis áður en við köstuðum okkur í sælgætisát! 

Svo er nautasteik (ekkert páskalamb hér) í kvöld, algjör sæla. Einn frídagur eftir og við erum að hugsa um að hjóla eitthvað út í buskann. Dásemdarlíf sem þetta er - ég elska frí :)

Ást og virðing, 
Sigrún.

No comments:

Post a Comment