Svo það má segja að ég sé alveg að njóta þess að upplifa vorið hér á Skáni, enda ekki langt frá danska vorinu hérna hinu megin við sundið.
Hversu mikil staðfesting á lífinu er þetta? Allt lifnar við og "Vér göngum mót hækkandi sól, sól, sól..." (Skólaljóðin standa fyrir sínu ;)
Ég veit ekki, ég var einmitt að segja Ólöfu Ósk frá því áðan að sennilega er ég ekki svo mikill íslendingur. Ég sakanði Danmerkur mun meira árin 8 á Íslandi, en ég saknaði Íslands árin 9 í Danmörku. Tilfinninguna "ég er komin heim" hef ég í raun hvergi fengið nema í Græsted hingað til.
Mér finnst æði að koma á Norðfjörð, þar sem ég er uppalin og stór hluti af fjölskyldunni minni býr, en ég er ekki "komin heim" þar. Ég hef aldrei haft þessa tilfinningu þegar kemur að Akranesi, og ekki Reykjavík heldur. Nei, ég held að það megi segja að ég sé "Græsted-ingur" - þó að auðvitað sé ég Norðfirðingur! :) Og ég elska að sjá fallegar myndir úr firðinum fagra og þreytist aldrei á að "þræta" við Jonna vin minn og Seyðfirðing, hvaða fjörður sé "fjörðurinn fagri". Þarf varla að taka fram að við erum afar ósammála :)
Nóg um það!
Ég hef ekki skrifað neitt hér síðan í nóvember, svo það var tími til kominn. Þó svo að þið sem fylgist með okkur á facebook vitið svo sem mikið af því sem gengur og gerist í okkar lífi hér.
Einar flutti til okkar 11.febrúar og það var löngu tímabært og afar kærkomið. Það skal samt viðurkennast að við þurftum að venjast því. Einari leið að vissu leiti eins og hann væri gestur fyrstu vikurnar. Við vorum auðvitað búin að skapa okkar rútínur og reglur hér og hann þurfti að læra inn á þetta og koma sér að og kannski skapa sér pláss. Ég þurfti líka að venjast því að hann væri hér, að gefa honum pláss. Og ég þurfti líka að venjast því að maðurinn andar - og það íka á nóttinni! En þetta hafðist allt og nú er lífið löngu fallið í fastar skorður. Og virkilega dásamlegt að vera sameinuð á ný. Fjarbúð er ekki eitthvað sem við munum sækjast eftir í framtíðinni - sambúð er mun skemmtilegri og betri - finnst okkur.
þessi er tekin daginn eftir að Einar flutti til okkar
Fljótlega eftir að Einar flutti byrjaði hann að vinna. Vinnuna var hann búinn að fá, fékk svar 2 dögum fyrir jól - ekki slæm jólagjöf :) Hann er að vinna hjá íslenskum rafvirkja sem er með lítið fyrirtæki hér í Helsingborg, stutt að fara, ca 5 mín á hjóli. Hann er mjög ánægður í vinnunni.
...svo ánægður að hann tekur vinnuna stundum með sér heim :)
Duglegi drengurinn okkar :
Jón Ingvi er líka að standa sig mjög vel, en hann er orðinn afar skólaþreyttur og sér í raun lítinn tilgang með þessari skólagöngu. Enda ætlar hann að meika það hressilega í múkíkinni, svo stærðfræði og annað slíkt þykir honum afar mikil tímasóun. Þrátt fyrir það þá fær hann bestu meðmæli frá kennaranum sínum. Núna í vor er verknámsvika hjá honum. Nemendur eiga sjálfir að finna sér stað fyrir þessa viku og við mæðgin röltum í bæinn um daginn. Fórum inn í hljómfæraverslun og spurðumst fyrir þar. Og þar fékk hann pláss á staðnum. Barasta frábært.
Reyndar segist hann vilja skipta um skóla, fara þangað sem er meiri tónlist, svo við munum kíkja á það með honum. Vonandi er hægt að skipta um skóla þó bara sé einn vetur eftir.
(Við vorum sko að fatta að þar sem hann á bara einn vetur eftir þá eru bara 4 vetur eftir sem við eigum barn í grunnskóla...en við skulum nú ekki fara fram úr okkar...það eru þó 4 ár!)
Ég er afar þakklát fyrir að hafa, bæði núna og undanfarin ár, verið svo lánsöm að vera með yfirmenn sem trúa á mig og ýta við mér þangað sem ég þori varla sjálf. Hversu frábært er það?!!
stuð á lyfjaherberginu :)
Shit hvað ég held að þið séuð að gefast upp á mér núna...orðið ansi langt blogg... Ætlaði að segja ykkur meira...en stefni bara á að gera það á morgun! Annars nennir enginn að lesa ;)
Ást og virðing,
Sigrún.
No comments:
Post a Comment